• Ákveðið hefur verið að í stað íbúafunda í félagsheimilinu á Blönduósi í dag kl. 17:30 í dag og í Húnavallaskóla kl. 20:00 verði haldinn einn fjarfundur á Zoom kl. 20:00. Fundinum verður eftir sem áður streymt á Facebook.
 • Á fundinum verður kynning á framtíðarsýn samstarfsnefndar og forsendum fyrir sameiningartillögu hennar. Í kjölfar kynningarinnar gefst íbúum færi á að ræða niðurstöðurnar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi þær og sameiningu sveitarfélaganna almennt. Efnistök fundanna tveggja eru hin sömu en tilgangur þess að halda tvo fundi er að gefa sem flestum íbúum tækifæri til að taka þátt.
 • Fundunum verður einnig streymt á www.facebook.com/hunvetningur og áhorfendum gefinn kostur á að senda inn spurningar. Kynningin á fundinum verður tekin upp og gerð aðgengileg á netinu að honum loknum.
 • Leiðbeiningar til að tengjast Zoom
  • Hægt er að fylgjast með og taka þátt í hvaða snjalltæki sem er. Besta upplifunin fæst ef fylgst er með í tölvu. Gott er að setja Zoom-hugbúnaðinn upp á þá tölvu eða snjalltæki sem þú ætlar að nota tímanlega áður en fundurinn hefst. Þau sem eru þegar búin að setja upp Zoom á sínum vélum eru beðin um uppfæra í nýjustu útgáfu til að fá bestu virkni í umræðuhópum.
  • Zoom fyrir borðtölvur er á síðunni https://zoom.us/download en Zoom-smáforrit fyrir Android snjalltæki eru á Play Store og á App Store fyrir iPhone og iPad. Einnig er hægt að nota vefviðmót fyrir Zoom (Zoom Web Client) en virkni þess er takmarkaðri en virkni þess hugbúnaðar sem settur er upp á snjalltækinu.
 • Við mælum með að fólk mæti snemma fyrir framan skjáinn svo tími gefist til að bregðast við tæknilegum vandkvæðum sem geta komið upp við innskráningu. Aðgætið að heyrnartól og hljóðnemi séu tengdir við tölvuna/snjalltækið og virki sem skyldi. Í umræðum er gott að þátttakendur séu með virka myndavél og sjái hver annan. Einnig er hægt að leita leiðbeininga á skrifstofum sveitarfélaganna.
  • Þátttakendur eru beðnir um að skrá fornafn við myndina. Það er gert með því að smella á punktana þrjá sem birtast þegar bendillinn er dreginn yfir myndina sína og velja "rename".
  • Ef þú ert með veika tengingu á þráðlausu neti þá mælum við með að þú tengir þig með netsnúru.
 • Ákvörðun samstarfsnefndar um að breyta fyrirkomulagi íbúafunda byggir annarsvegar á áhyggjum af því að íbúar setji fyrir sig að mæta á staðfundi, þrátt fyrir að samkomutakmarkanir hafi verið rýmkaðar, en hins vegar og ekki síður á því að veðurútlit er ekki gott og útlit fyrir að færð spillist til sveita. Reynslan af fjarfundum á fyrri stigum verkefnisins er góð og þeir voru betur sóttir en vænta má á staðfundum. Blandað fyrirkomulag er tæknilega flóknara í framkvæmd og því var ákveðið að stíga skrefið til fulls og bjóða frekar upp á fjarfund þar sem allir fundarmenn standa jafnfætis þegar kemur að fyrirspurnum og umræðum.

 • Ef mikill áhugi reynist meðal íbúa á að hittast á fundum er mögulegt að það verði gert þegar nær dregur kosningunum.