Húnavatnshreppur

Húnavatnshreppur

Undirfellsrétt

Afréttarlöndin sem smöluð eru fyrir Undirfellsrétt eru Grímstungu- og Haukagilsheiði ásamt hluta úr Víðidalsfjalli.

Undirfellsrétt er í vestanverðum Vatnsdal við bæinn Undirfell.

   Undirfellsrétt í Vatnsdal hefur lengi verið ein af stærstu réttum landsins, og er enn, þótt fjárfjöldinn sé mun minni en hann var þegar flest var.  Gera má þó ráð fyrir að til réttar komi 10- 15.000 fjár á hverju hausti og líklega er þeim farið að fjölga lítillega aftur með hverju haustinusem líður.

 

   Núverandi rétt var byggð árið 1976.  Almenningurinn er á steyptum grunni, og er úr krossviði og vatnsrörum.  Milligerðir dilka og úthringur eru timburklæðning á rekaviðarstaurum.  Dilkar eru um 50. Þegar réttin var byggð var blómatími sauðfjárræktar og kindur á hverjum bæ, en nú eru margir dilkar sem engin kind kemur í um réttaleytið.  Sumir aðrir eru hins vegar yfirfullir og segir það allt um búskaparþróunina, búum fækkar, og þau stækka.  Fjárlausu dilkarnir nýtast hins vegar vel fyrir fólk sem vill fylgjast með réttarstörfum, enda eru margir aðkomumenn sem koma í Undirfellsrétt á haustin til þess að taka þátt og spjalla við bændur.

 

   Við hliðina á réttinni var reist aðstöðuhús með hreinlætisaðstöðu fyrir nokkrum árum og nefnist það Fellsbúð.  Þar er einnig veitingasala og hægt er að setjast niður og hvíla lúin bein, og jafnvel taka Vatnsdælingastemmu ef svo ber undir.

 

   Undirfellsrétt hefur lengi verið á svipuðum slóðum og nú er, og má vel sjá rústir tvennra eldri rétta á grundinni ofan hennar, rétta sem fyrst og fremst voru hlaðnar úr torfi.  Næsta rétt á undan þeirri sem nú stendur var á sama stað, en var rifin vorið 1976 og hin reist á sama stað.

 

   Áður mun hafa verið réttað á eyrunum við Grímstungu, og jafnvel víðar.

 

   Nú langar mig að lýsa í örfáum orðum göngum og þó einkum réttahelgi í Vatnsdal.

 

    Á mánudegi halda 13 gangnamenn í svokallaða Undanreið, þeir fara alla leið í Fljótsdrög sunnan Stóra-Sands, við norð-vestanverðan Langjökul, og hefja smölun þar.

 

    Á þriðjudegi leggja af stað um 20 í viðbót og kallst þeir Sandmenn, þeir hitta Undanreiðarmenn á Stóra-Sandi á miðvikudegi, og smalar hópurinn síðan norður Grímstungu-og Haukagilsheiðar. Grímstunguheiðarmenn gista í Öldumóðuskála, en Haukagilsheiðarmenn í Álkuskála.

 

   Á fimmtudagskvöldi koma Grímstunguheiðarmenn niður að Grímstungu og er safnið sett í safnhólf á Haukagili.  Það er mjög skemmtilegt að sjá “hvítgullið” streyma niður í dalinn meðfram Álkugilinu, yfir brúna á Álku og inn í hólf.  Sumarfrelsið er búið.

 

   Þetta fé er rekið til réttar á föstudegi og Undirfellsrétt hefst kl. 13.00.  Fólk drífur að og réttarstörf ganga undantekningalaust vel, enda er vinnuaðstaðan góð og öll hönnun réttarinnar vel heppnuð.  Síðdegis, þegar réttarstörfum er að ljúka, og bændur farnir að aka fé sínu heim, eru aðrir sem skima upp í brekkurnar fyrir ofan Snæringsstaði og bíða eftir því að fyrstu kindurnar úr Haukagilsheiðarsafninu og úr Víðidalsfjalli birtist þar.  Og viti menn, allt í einu byrja þær að koma yfir Fellið sunnanvert og streyma niður brekkurnar.  Fyrr en varir er búið að reka þetta safn, sem er  oftast stærra en Grímstunguheiðarsafnið, inn í safngirðinguna.  Gangnamenn stíga af baki og snússa sig, og vasapelinn er dreginn á loft.   Senn líður að kvöldi, sum árin er byrjað að rétta  úr seinna safninu strax, en stundum er það látið bíða laugardagsins. Enda er réttadagurinn bara einu sinni á ári og flestir búnir að fá nóg, tímabært að hafa sig heim, huga að gangnahestum og drífa sig í bað!

 

   Á laugardagsmorgninum er svo klárað að rétta það sem eftir var, og fénu komið heim til sín.

 

Jón Gíslason Hofi Vatnsdal, 2006

 

UNDIRFELLSRÉTT 2006:
Lagt verður af stað í göngur þann 3. september.
Undirfellsrétt byrja á hádegi föstudaginn 8. september og verður fram haldið kl. 9.00 á laugardagsmorguninn ef ekki tekst að ljúka réttinni á föstudeginum.
Réttarstörf á hrossum hefjast í Undirfellsrétt að morgni laugardagsins 23. september kl. 10.00.
Sundurdráttur á óskilafé úr heialöndum verður sunnudaginn 24. september kl. 13.00
Fjárskil verða þriðjudaginn 10. október kl. 11.00.

 

 

 

 

 

Mynd augnabliksins

Teljari

Í dag: 113
Samtals: 760072

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.12 2007 - Stefna ehf

Innskráning